25.10.2007 | 23:08
Almenningssamgöngur í Árborg að verða að veruleika
Sú frábæra ákvörðun var tekin á bæjarráðsfundi í Árborg í morgun að koma á almenningssamgöngum innan sveitarfélagsins. Meirihluti V, S og B lista lögðu fram þessa tillögu og var hún samþykkt með atkvæðum meirihlutans gegn atkvæði fulltrúa meirhlutans. Takið eftir þessu að fulltrúi Sjálfstæðisflokksins hafnar þessu að komið verði á samgöngum á milli strandarinnar og Selfoss. Þetta var baráttumál VG fyrir síðustu kosningar og er nú að verða að veruleika um áramót, þrátt fyrir andmæli D- listans.
Brú milli byggða - tímamót í Árborg
Á bæjarráðsfundi Árborgar í dag, 25. október, samþykkti meirihluti bæjarstjórnar að efla almenningssamgöngur milli byggðakjarna sveitarfélagsins. Bæjarstjóra og bæjarritara var falið að ganga til samninga við Þingvallaleið ehf um fjölgun ferða frá og með áramótum, en Þingvallaleið er með sérleyfi á þessari leið.
Um er að ræða tímamóta ákvörðun sem vænta má að gjörbreyti búsetuskilyrðum í Árborg. Íbúum Eyrarbakka, Stokkseyrar og dreifbýlisins er með þessu móti gert auðveldara að sækja fjölbreytta þjónustu sem veitt er á Selfossi og íbúum Selfoss að njóta þess sem menningar- og sögustaðirnir við ströndina hafa að bjóða svo dæmi séu tekin. Gera má ráð fyrir að þessi þjónusta hafi í för með sér miklar breytingar fyrir íbúa utan Selfoss. T.d. fyrir börn og ungmenni sem sækja fjölbreytt íþrótta- og tómstundastarf á Selfoss og fyrir þá íbúa sem ekki hafa sjálfir bíl til umráða en sækja ýmsa þjónustu á Selfoss. Þá eru almenningssamgöngur mikilvægur þáttur í því að draga úr umferð bifreiða og leiða þannig til minni mengunar og slits á vegum. Þetta er mikilvægt skref í þá átt að íbúar Árborgar njóti jafnræðis hvar sem þeir búa í sveitarfélaginu og er til þess fallið að styrkja enn frekar samkennd og samstöðu innan þessa unga sveitarfélags.
Um er að ræða tilraunaverkefni til eins árs og verður fyrirkomulag þjónustunnar kynnt vandlega þegar samningur liggur fyrir. ( www.arborg.is)
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.