Menntakerfi er ein mikilvægasta eign hverrar þjóðar og hér á Íslandi höfum við alla möguleika á að byggja upp enn öflugara skólakerfi fyrir alla. Í Salamanca-yfirlýsingunni, sem alþjóðleg er samþykkt um menntamál, segir m.a.
... að menntun sé frumréttur hvers barns og að skylt sé að gefa því kost á að ná og viðhalda viðunandi stigi menntunar; að börn séu mismunandi og hafi sérstök áhugamál, hæfileika og námsþarfir; að í skipulagi menntakerfis og tilhögun náms beri að taka mið af miklum mun á einstaklingum og þörfum þeirra; að einstaklingar með sérþarfir á sviði menntunar skuli hafa aðgang að almennum skólum og þar beri að mæta þörfum þeirra með kennsluaðferðum í þeim anda að mið sé tekið af barninu; að almennir skólar séu virkasta aflið til að sigrast á hugarfari mismununar.
Við í Regnboganum leggjum áherslu á fjölbreytta menntun og möguleika til náms í umsjá hins opinbera. Mikilvægt er að öll börn eigi gott aðgengi að uppbyggilegu námi, frá leikskólaaldri til framhaldsskóla og fyrirbyggja þarf að ungmenni flosni upp úr skóla. Menntun er grundvöllur efnahagslegrar velferðar einstaklinga og framfara þjóðarinnar og huga þarf að gæðum hennar á öllum skólastigum og með fjölbreyttu námsframboði, í verk- og tækninámi, listnámi og bóknámi. Þróa þarf áfram og bæta möguleika til fjarnáms. Mikilvægt er að einstaklingar geti byggt á styrkleikum sínum.
Grundvallarviðmið er jafnrétti til náms sem er fólgið í því að bjóða nemendum nám og kennslu við hæfi og gefa þeim tækifæri til að spreyta sig á viðfangsefnum að eigin vali.
Mikilvægt er að leggja áherslu á heildstæða menntun frá leikskóla til háskóla. Einnig þarf að huga að fullorðinsfræðslu. Menntakerfið þarf að vera sveigjanlegt til að mæta nýjungum og breyttum kröfum samfélagsins. En fyrst og fremst þarf það að veita öllum nemendum alhliða og góða menntun og styrkja þá og búa þá undir að taka þátt í lýðræðisþjóðfélagi. Það er skylda allra leikskóla og grunnskóla að taka við öllum börnum hvernig sem á stendur um atgervi þeirra til líkama eða sálar, félagslegt og tilfinningalegt ásigkomulag eða málþroska, fötluð börn og ófötluð, afburðagreind og greindarskert og börn af innlendum sem erlendum uppruna.
Í 37. gr. grunnskólalaga segir að börn og unglingar sem eiga erfitt með nám sökum sértækra námsörðugleika, tilfinningalegra eða félagslegra örðugleika og/eða fötlunar eigi ótvíræðan rétt á sérstökum stuðningi í námi. Að þessu þarf að gæta og einnig að því að nemendur og foreldrar þeirra hafi val um skóla. Um 0,4% nemenda í grunnskólum eru í sérskólum og 0,4% í sérhæfðum sérdeildum við almenna grunnskóla. Við megum ekki hugsa svart hvítt, við verðum að skoða hvað hentar hverjum og einum. Einhverjum hentar að vera í almennum skóla á meðan annar finnur sig betur í sérskóla, þá á það að vera val. Það er ekki hægt að setja nemendur í ákveðna kassa og form, heldur verðum við að koma til móts við þá þar sem þeir eru staddir. Til þess að þetta geti gengið þarf að veita frekara fé inn í menntakerfið, huga þarf að menntun og sérhæfingu þeirra sem koma að kennslu þessara nemenda og yfirleitt allra þeirra sem koma að umsjá þeirra.
Einhver kann að spyrja: Er þetta ekki dýrt? Jú, vafalaust ef hugsað er í krónum og aurum og exel-skjölin látin ráða för. En þetta er ódýrt og sjálfsagt ef við hugsum um verðmætið sem liggur í hverjum og einum einstakling og ef við hugsum um lífið og gleðina, traustið og samhjálpina ? en allt eru það þættir sem við á J-listum Regnbogans leggjum áherslu á umfram hin nauðuga þankagang peningahyggjunnar sem hvergi ætti að koma að skólastarfi.
Höfundur er sérkennari og skipar 2. sæti J-lista Regnbogans í Reykjavík Suður.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.