Ályktanir frá aðalfundi VG Árborg

vg_logo
 

Svæðisfélag Vinstri grænna í Árborg hélt aðalfund sinn miðvikudaginn 29 nóvember. Sædís Ósk Harðardóttir var endurkjörin formaður en auk hennar sitja Jón Hjartarson, Margrét Magnúsdóttir, Sigurður Ingi Andrésson og Valgeir Bjarnason í stjórn félagsins. Nokkrar ályktanir voru samþykktar; um eignarhald á Hitaveitu Selfoss, almenningssamgöngur, lækkun á leikskólagjöldum, umhverfissérfræðing og bitruvirkjun. Ályktanirnar í heild sinni fylgja hér:

Eignarhald Hitaveitu Selfoss

Aðalfundur Vg í Árborg haldinn fimmtudaginn 28. nóvember 2007 samþykkir eftirfarandi ályktun: Vg í Árborg leggur áherslu á að Hitaveita Selfoss sé í eigu sveitarfélagsins. Hitaveitan er öllum íbúum sveitarfélagsins mikilvæg þar sem hún annast grunnþjónustu varðandi orkuöflun og dreifingu í þágu allra íbúa sveitarfélagsins. Þessir mikilvægu hagsmunir verða ekki tryggðir nema eignarhaldið sé alfarið í höndum sveitarfélagsins. Fundurinn leggst alfarið gegn öllum hugmyndum sem kunna að fela í sér breytingu á eignarhaldi Hitaveitu Selfoss.

Almenningssamgöngur

Aðalfundur Vg í Árborg haldinn fimmtudaginn 28. nóvember 2007 fagnar ákvörðun bæjarstjórnar Árborgar um að hefja almenningssamgöngur milli þéttbýlisstaða sveitarfélagsins. Fundurinn leggur áherslu á að tíðni ferða og leiðakerfi verði með þeim hætti að nýtist fólki vel svo samgöngurnar verði raunverulegur valkostur. Hvatt er til þess að kanna afstöðu almennings til skipulagsins á árinu svo unnt sé að mæta óskum fólks með sem bestum hætti.

Lækkun á leikskólagjöldum

Aðalfundur Vg í Árborg haldinn fimmtudaginn 28. nóvember 2007 fagnar lækkun á leikskólagjöldum og telur þær góðan áfanga að gjaldfrjálsum leikskóla. Fundinum er ljóst að til að gjaldfrjáls leikskóli verði að veruleika, verða að koma til tekjustofnar frá ríkinu með sama hætti og við fjármögnun grunnskólans.

Umhverfissérfræðingur

Aðalfundur Vg í Árborg haldinn fimmtudaginn 28. nóvember 2007 fagnar þeirri mikilvægu ákvörðun bæjarstjórnar Árborgar að setja á fót stöðu umhverfissérfræðings á sviði skipulags og umhverfismála. Fundurinn fagnar sérstaklega að staða umhverfissérfræðings verði sett til jafns við byggingarfulltrúa og vinni á sama sviði og hann og heyri beint undir bæjarstjóra. Þessi staðreynd gefur mikilvægar vísbendingar um að meirihluti bæjarstjórnar setji umhverfismál sveitarfélagsins í efstu lög stjórnsýslunnar og ætli þeim að hafa mótunaráhrif á mikilvægar ákvarðanir stjórnsýslunnar og innan sveitarfélagsins alls

Bitruvirkjun

Aðalfundur Vg í Árborg haldinn fimmtudaginn 28. nóvember 2007 mótmælir harðlega áætlunum OR um Bitruvirkjun. Áætluð virkjun er á viðkvæmu svæði þar sem mikil ósnortin náttúruverðmæti eru í hættu. Fundurinn skorar því á sveitarstjórn Ölfus að veita ekki framkvæmdaleyfi fyrir virkjuninni, einnig skorar fundurinn á OR að hætta við fyrirhugaða virkjun og loks skorar fundurinn á borgarstjórn Reykjavíkur að beita sér fyrir því að fallið verði frá umræddum virkjunaráformum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband